Rice samþykkti vatnspyntingar

Condoleezza Rice.
Condoleezza Rice. Reuters

Condoleezza Rice, fyrrverandi utanríkisráðherra Bandaríkjanna, veitti samþykki fyrir því árið 2002, þegar hún var þjóðaröryggisráðgjafi Georges W. Bush, Bandaríkjaforseta, að bandaríska leyniþjónustan beitti svonefndri vatnsbrettaaðferð við yfirheyrslur á meintum hryðjuverkamönnum.

Þetta kemur fram í skýrslu, sem leyniþjónustunefnd þingsins birti í gærkvöldi. 

Minnisblöð, sem Barack Obama, Bandaríkjaforseti, birti um síðustu helgi, sýndu að tveir meintir al-Qaedaliðar, voru beittir þessari aðferð 266 sinnum við yfirheyrslur. Aðferðin felst í því, að fangi er bundinn, klæði sett yfir höfuð hans og vatni hellt yfir munn hans og nef þannig að honum finnst hann vera að drukkna.  

Dick Cheney, fyrrverandi varaforseti, hefur sagt að þessi aðferð hafi borið árangur.

Í skýrslu þingnefndarinnar sést, að Rice og aðrir háttsettir embættismenn í stjórn Bush fengu fyrst upplýsingar um óvenjulegar yfirheyrsluaðferðir, þar á meðal vatnsbrettaaðferðina, í maí 2002.  

CIA vildi beita þessum aðferðum til að yfirheyra Abu Zubaydah, sem handtekinn var í Pakistan í mars 2002. Á fundi með George Tenet, þáverandi forstjóra CIA í júlí 2002 sagði Rice, að CIA gæti haldið áfram með yfirhugaða yfirheyrslu á Zubaydah, svo framarlega sem dómsmálaráðuneytið samþykkti það.

Fram kom í minnisblöðum CIA að vatnsbrettaaðferðinni var beitt 66 sinnum við yfirheyrslur á Zubaydah og 183 sinnum í yfirheyrslum yfir Khalid Sheikh Mohammad.

Aðrar yfirheyrsluaðferðir voru m.a. að halda föngum vakandi sólarhringum saman, neyða þá til avera naktir og húka í erfiðum stellingum lengi.  

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert