Fyrsta ráðstefnan um íssvæði heimsins

Jonas Gahr Störe utanríkisráðherra Noregs og Al Gore friðarverðlaunahafi á …
Jonas Gahr Störe utanríkisráðherra Noregs og Al Gore friðarverðlaunahafi á ísráðstefnunni í Tromsö í dag. SCANPIX

Al Gore, friðarverðlaunahafi Nóbels og fyrrverandi varaforseti Bandaríkjanna, segir að heimurinn verði að bregðast skjótt við loftslagsbreytingunum á pólsvæðunum. Hann óttast að örlagastundin nálgist, samkvæmt frétt norska blaðsins Nordlys.

Al Gore tekur nú þátt í ráðstefnu Norðurskautsráðsins í Tromsö. Þar funda ráðherrar tólf ríkja og vísindamenn. Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir félagsmálaráðherra er fulltrúi Íslands á ráðstefnunni.

Al Gore sagði við komu sína til Tromsö í dag að á liðnum árum hafi vísindamenn sagt að hætta sé á að örlagastund renni upp í loftslagsmálum eftir nokkra áratugi. Verði hlýnunin á norðurslóðum slík að sífrerinn bráðni muni mikið magn metans sleppa út í andrúmsloftið. Við þær aðstæður verði miklu erfiðara en ella að bregðast við loftslagsbreytingum. „Við höfum takmarkaðan tíma,“ sagði Al Gore.

Gore hrósaði Jonas Gahr Störe, utanríkisráðherra Noregs, fyrir að hafa átt frumkvæði að fyrstu loftslagsráðstefnunni sem einbeitir sér að ísilögðum pólsvæðum heimsins. Loftslagsráðstefnan var haldin í dag og á morgun verður ráðherrafundur. 

Störe sagði í samtali við norsku fréttastofuna NTB að hann vonaði að ráðstefnan í Tromsö verði mikilvæg, bæði í vísindalegu og stjórnmálalegu tilliti.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert