Dæmdur í lífstíðarfangelsi

Þýskur karlmaður var í dag dæmdur í lífstíðarfangelsi fyrir morð á unnusta stúlku sem hann varð ástfanginn af í gegnum samskipti þeirra á netinu. Maðurinn, David Heiss 21 árs, hafði ofsótt parið í fleiri mánuði en hann hafði ítrekað lýst yfir ást sinni á stúlkunni. Þegar ljóst var að honum yrði ekki ágengt þá myrti hann sambýlismann hennar með því að stinga hann 86 sinnum með hníf.

Heiss,  sem er frá Limburg í Þýskalandi, reiddist mjög þegar stúlkan, Joanna Witton, hafnaði honum. Hann flug í september í fyrra frá Frankfurt til Birmingham í Englandi og braust inn í íbúð Witton og unnusta hennar, Matthew Pyke í Nottingham.

Við réttarhöldin í Nottingham sagði Heiss að um sjálfsvörn hafi verið að ræða en Pyke hafi ráðist á hann vopnaður hnífi.  

Heiss hafði í sex mánuði, áður en hann lét til skarar skríða, angrað breska parið og ítrekað lýst yfir ást sinni á stúlkunni. Hann hafði heimsótt parið í tvígang en þau höfðu reynt að losna við Heiss af vef sínum, meðal annars með því að loka fyrir aðgang hans að síðu þeirra á vefnum en hann sendi stúlkunni stöðugt ástaryfirlýsingar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert