Týndi hlekkurinn fundinn

Mynd af Idu.
Mynd af Idu.

47 milljóna gamall steingervingur af lítilli veru sem líkist apa sýnir í smáatriðum hvernig lífið byrjaði í fyrstu að þróast í átt að manneskjunni. Norskur steingervingafræðingur, Jørn Hurum sem starfar við Jarðfræðisafnið á Háskólanum í Osló, á heiðurinn að fundinum.

„Steingervingurinn sýnir okkur hver við erum og hvaðan við komum," segir Hurum í samtali við norska vísindavefinn forskning.no. „Hann er í rótinni á ættartrénu okkar og svo heill og nákvæmur í smáatriðum að við getum hreinlega sagt að við vitum hvernig allt byrjaði."

Fyrir þennan fund hafa vísindamenn eingöngu haft uppi getgátur út frá steingervingabrotum sem hafa fundist. Þeir hafa ekki einu sinni verið öruggir um að þau brot tilheyrðu sama einstaklingi eða tegund.

Steingervingurinn er af kvendýri sem er minna en hálfur metri á hæð. Hurum og félagar hans segja dýrið fyrsta apann. Eintakið er svo gott að feldurinn sést greinilega og vísindamennirnir geta jafnvel séð hvað Ida, eins og þessi formóðir okkar hefur verið kölluð, fékk sér í hádegismat daginn sem hún dó.

En þetta er ekki einu upplýsingarnar sem steingervingurinn góði lætur uppi. Ida var ekki orðin eins árs gömul þegar eiturgas úr stöðuvatni í hitabeltinu grandaði henni. Vatnið var þó ekki staðsetta í hitabelti nútímans heldur í Þýskalandi, sem í þá daga var u.þ.b. þar sem Sikiley er í dag.

Ida drapst samstundis og þar sem hún sat á vatnsbakkanum og sötraði vatn féll hún út í og þannig vildi það til að hún komst ekki í snertingu við bakteríur og önnur niðurbrjótandi efni. Hið sérstæða lífríki vatnsins sá nefnilega til þess að ekkert súrefni var í botnlögum þess né heldur nokkurt líf – sem eru fullkomnar aðstæður til að varðveita nákvæm smáatriði. Smám saman grófst hræið niður í leðju sem breyttist í margra tuga þykkt steinolag þegar fram liðu stundir. Þegar Ida dúkkaði aftur upp, 47 milljónum ára seinna, var varla skrámu að sjá á henni.

Steingervingurinn er sá langheillegasti sem nokkru sinni hefur fundist af forfeðrum okkar, en 95 prósent af beinum Idu eru á sínum stað. Til samanburðar eru aðeins um 40% beina eins þekktasta mannapasteingervingsins til þessa varðveitt, og sá er aðeins þriggja milljóna ára gamall.

Vefsvæðið revealingthelink.com

Frétt forskning.no af málinu (á norsku)

Frétt skynews af fundinum (á ensku)

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert