Það er líf eftir Hvíta húsið segir Bush

George W. Bush var þeirri stundu fegnastur þegar hann yfirgaf …
George W. Bush var þeirri stundu fegnastur þegar hann yfirgaf Hvíta húsið. JASON REED

George W. Bush hefur látið lítið fyrir sér fara síðan hann lét af embætti Bandaríkjaforseta í janúar síðastliðnum. Í gær sagði hann hinsvegar í ræðu yfir gagnfræðaskólanemum í Nýju Mexíkó að hann væri mjög glaður að hafa snúið baki við Washington.

„Ég finn ekki lengur fyrir þessari gríðarlegu ábyrgð sem hvíldi á mér þegar ég bjó í Hvíta húsinu. Og ef ég á að segja eins og er þá er það mjög frelsandi tilfinning,“ sagði Bush, sem hafði aldrei mælst óvinsælli en síðustu daga sína í embætti.

Bush  hefur lítið sem ekkert talað við fjölmiðla eftir að hann hóf nýtt líf sem óbreyttur borgari, en hann gaf unglingunum í Nýju Mexíkó innsýn í daglegt líf sitt síðustu mánuði. Hann lýsti því fyrir þeim þegar hann fór út að ganga með hundinn sinn, Barney, í nýja hverfinu sínu þar sem hann býr nú í Dallas, og hann þurfti að sinna kalli náttúrunnar. „Og þarna stóð ég, fyrrum forseti Bandaríkjanna, með plastpoka í höndinni,“ sagði hann. „Lífið er að verða eðlilegt að nýju.“

Í tilraun til að hvetja nemendurna ungu til dáða sagði Bush þeim af uppgjafarhermanni, Christian Bagge, sem missti báða fæturna í átökum í Írak. Hann sagði þeim að ekki aðeins hefði Bagge lært að ganga aftur heldur gæti hann líka hlaupið. Ef fótalaus maður gæti gert það, sagði Bush, „þá getið þið farið í háskóla.“

Bush var fagnað með standandi lófataki eftir ræðuna, en hann neitaði að veita fjölmiðlum viðtöl og óskaði eftir því að myndavélar og upptökutæki væru bönnuð þar sem ræðan var haldin. Hann mun þessa dagana vera að vinna að bók um þær erfiðu ákvarðanir sem hann þurfti að taka í forsetastól.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert