Þvingaðar í vændi með vúdú göldrum

Nígersku stúlkurnar eru þvingaðar í vændi um alla Evrópu með …
Nígersku stúlkurnar eru þvingaðar í vændi um alla Evrópu með hótunum.

Lögreglan á Spáni hefur handtekið 23 manneskjur sem grunaðar eru um að flytja Nígerskar konur inn í landið og þvinga þær til að stunda vændi með því að nota vúdú galdra. Sagt er að konurnar hafi ekki þorað öðru en að gera það sem þeim var sagt vegna eiðs sem þær voru látnar sverja á gröf forfeðra sinna áður en þær yfirgáfu Nígeríu.

Peningarnir sem konurnar unnu sér inn með vændinu voru teknir af þeim og látnir ganga upp í skuldir vegna meints kostnaðar við að smygla þeim til Spánar, að sögn lögreglu. Smyglararnir eru sagðir hafa komið konunum fyrir í vændishúsum víðsvegar um Evrópu.

Fyrr í þessum mánuði fóru 11 manns fyrir dóm í Hollandi sakaðir um að nota vúdú galdra til að þvinga allt að 150 nígerskar konur og stúlkur í vændi í Evrópu. Handtökurnar nú koma í kjölfar ábendingar frá nígerskri konu í Seville sem segist vera eitt fórnarlamba fólksins. Talið er að fólkið hafi haft konurnar á valdi sínu með því að hræða þær og telja þeim trú um að sálum þeirra yrði tortímt og þær myndu missa vitið ef þær hlýddu ekki skipunum.

Stúlkurnar, sem flestar eru á aldrinum 12 - 18 ára, eru taldar hafa þjónustað um 30 menn á dag í kynlífsþrælkun, enda var þeim sagt að því meiri peninga sem þær færðu kvölurum sínum þeim mun fyrr yrði þeim sleppt úr haldi og vúdú álögunum aflétt.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert