Norður-Kóreumenn sprengja kjarnorkusprengu

Miðborg Pyongyang, höfuðborg Norður-Kóreu.
Miðborg Pyongyang, höfuðborg Norður-Kóreu.

Norður-Kóreumenn sprengdu í nótt kjarnorkusprengju, sem var öflugri en sprengjan sem þeir sprengdu í október 2006. Þá virðast þeir einnig hafa gert tilraun með skammdræga eldflaug, að sögn suður-kóresku fréttastofunnar Yonhab.

Norður-kóreskir ríkisfjölmiðlar skýrðu frá því að vel heppnuð kjarnorkutilraun hefði verið gerð í nótt. Tilraunasprengingin var neðanjarðar 10-15 km frá þeim stað þar sem fyrsta tilraunin var gerð. Sprengingin kom fram á jarðskjálftamælum í Suður-Kóreu og mældist 4,5 stig á Richter en sprengingin árið 2006 mældist 3,6 stig.  

Stjórnvöld víða um heim hafa lýst áhyggjum af kjarnorkutilrauninni í nótt. Bandarísk stjórnvöld segjast munu ræða við bandamenn sína og afla frekari upplýsinga. Það sama sögðu Rússar, sem lýstu áhyggjum af málinu. Bretar sögðu að um væri að ræða skýrt brot gegn ályktunum öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna og Japanar tóku í sama streng og sögðu að gripið yrði til aðgerða. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert