Sammála um að breyta fiskveiðireglunum

Evrópusambandið, höfuðstöðvar, Brussel.
Evrópusambandið, höfuðstöðvar, Brussel. AP

Sjávarútvegsráðherrar aðildarlanda Evrópusambandsins samþykktu á fundi í Brussel í dag að afnema í raun núgildandi reglur við úthlutun fiskveiðikvóta, að því er fram kemur í frétt breska ríkisútvarpsins, BBC.

Umhverfisverndarsinnar og sjómenn hafa lengi haldið því fram að núverandi fiskveiðikerfi ESB hafi brugðist og stuðlað að miklu brottkasti. Áætlað er að á hvert kíló sem veitt er af þorski í Norðursjó sé öðru kílói kastað í sjóinn, að því er fram kemur í frétt BBC.

Stefnt er að því ESB breyti sameiginlegri sjávarútvegsstefnu sinni árið 2012. Breska ríkisútvarpið kveðst hafa heimildir fyrir því að ráðherrarnir hafi verið sammála um að breyta stefnunni þannig að dregið verði stórlega úr miðstýringunni og auka völd aðildarlandanna í sjávarútvegsmálum.

Haft er eftir Bertie Armstrong, framkvæmdastjóra samtaka skoskra sjómanna, að hann sé mjög ánægður með niðurstöðu fundar sjávarútvegsráðherranna. „Við vonuðum að afnám miðstýringar yrði í brennidepli, þannig að þetta eru góðar fréttir,“ hefur BBC eftir Armstrong.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert