Nauðganir myndaðar í Abu Ghraib

Fanga ógnað með hundi í Abu Ghraib fangelsinu
Fanga ógnað með hundi í Abu Ghraib fangelsinu Reuters

Á meðal mynda úr Abu Ghraib fangelsinu í Írak sem Barack Obama Bandaríkjaforseti reynir nú að koma í veg fyrir að birtar verði opinberlega eru myndir sem sýna nauðganir og annað kynferðislegt ofbeldi. Þetta kemur fram á vef Daily Telegraph. 

Ein myndanna er sögð sýna bandarískan hermann nauðga konu og önnur karltúlk nauðga karlmanni. Þá eru aðrar myndir sagðar sýna kynferðislegt ofbeldi þar sem beitt er kylfum, vírum og fósfórljósum. Á einni myndinni má einnig sjá hvar kona er neydd til að bera á sér brjóstin.

Fram kemur skýrslu Antonio Taguba, fyrrum yfirmanns í hernum, um fangelsið frá árinu 2004 að kynferðislegt ofbeldi gegn föngum hafi farið þar fram. Hann hefur nú staðfest í viðtali við Daily Telegraph að myndir séu til af slíku.

Hann segist þó sammála forsetanum um að ekki sé rétt að birta myndirnar.

„Þessar myndir sýna pyntingar, misþyrmingar, nauðganir og alls kyns ósóma," segir hann. „Ég er ekki viss um hvaða tilgangi birting þeirra ætti að þjóna öðrum en lagalegum og afleiðingin yrði sú að stofna hermönnum okkar í hættu, einu verndurum utanríkismálastefnu okkar, þegar við þurfum mest á þeim að halda og einnig breskum hermönnum sem eru að reyna að byggja upp öryggi í Afganistan."

Þá segir hann lýsingar á myndunum nógu hræðilegar. „Þið getið treyst því þegar ég segi það,” segir hann.

Obama reynir nú að koma í veg fyrir birtingu myndanna sem sagðar eru vera um 2.000 en hann sagði í apríl að úrskurði um að myndirnar skyldu birtar að kröfu bandarísku mannréttindasamtakanna ACLU yrði ekki áfrýjað.

Obama staðhæfir þó að myndirnar sem um ræðir séu ekki meira sláandi en myndir sem þegar hafi verið birtar af pyntingum hermanna á föngum í Abu Ghraib.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert