Grænland borgaði fyrir brúðkaupsveislu Lykketofts

Mogens Lykketoft, fyrrverandi fjármálaráðherra Danmerkur.
Mogens Lykketoft, fyrrverandi fjármálaráðherra Danmerkur. Sverrir Vilhelmsson

Komið hefur í ljós að grænlenskir skattgreiðendur voru látnir borga fyrir brúðkaupsveislu Mogens Lykketofts, fyrrverandi fjármálaráðherra Danmerkur, og eiginkonu hans, Mette Holm, 25. júlí 2005, að sögn danskra fjölmiðla.

Vinur hjónanna, presturinn Jonathan Motzfeldt, gaf þau saman í þorpinu Qassiarsuk á Suður-Grænlandi. Motzfeldt var þá formaður grænlensku landstjórnarinnar.

Um 50 íbúum þorpsins var boðið í veisluna. Grænlenski landsjóðurinn greiddi reikninginn, að andvirði 4.500 danskra króna (105.000 íslenskra). Landsjóðurinn borgaði einnig fyrir morgunverð að andvirði 3.500 danskra króna (82.000 íslenskra) sem hjónin snæddu morguninn eftir ásamt nokkrum öðrum gestum í boði Motzfeldts.

Lykketoft segist ekki hafa vitað að landsjóðurinn hafi verið látinn borga fyrir veisluna. „Ég bað um hjónavígslu og ekki neitt annað,“ hefur fréttavefur danska ríkisútvarpsins eftir ráðherranum fyrrverandi.

Upplýsingarnar um reikningana komu fram þegar fjölmiðlar á Grænlandi fóru að grennslast fyrir um notkun grænlenskra stjórnmálamanna á opinberu fé. Meint spilling stjórnmálamanna hefur verið í brenndidepli í aðdraganda þingkosninga sem fram fara á Grænlandi á þriðjudag. Hermt er að meðal annars hafi komið í ljós að Motzfeldt hafi látið landsjóðinn borga fyrir veislu sem hann hélt í tilefni af brúðkaupsafmæli hans og eiginkonu hans, jólamat sem hann gaf ættingjum og flugmiða handa vinum og kunningjum. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert