Reynir að stöðva myndbirtingar

Silvio Berlusconi, forsætisráðherra Ítalíu.
Silvio Berlusconi, forsætisráðherra Ítalíu. Reuters

Silvio Berlusconi, forsætisráðherra Ítalíu, er nú sagður reyna að koma í veg fyrir að fjölmiðlar birti myndir af veislugestum, meðal annars ungum, berbrjósta stúlkum, í húsi hans í Sardiníu.

Berlusconi er sagður hafa sent stofnun, sem verndar persónuupplýsingar, beiðni um að banna myndbirtingarnar, að sögn dagblaðanna La Stampa og Il Corriere della Sera.

Hermt að ljósmyndari nokkur hafi tekið um 700 myndir í húsinu og garði þess, meðal annars af berbrjósta stúlkum sem spókuðu sig í garðinum eða fóru í sturtu.

Á öðrum myndum sést Berlusconi, sem er 72 ára, spjalla við konur en tekið er fram að þær hafi verið í fötum.

Fast hefur verið lagt að Berlusconi að útskýra samband  sitt við Noemi Letizia, átján ára stúlku, sem varð til þess að eiginkona hans, Veronica Lario, óskaði eftir skilnaði. Berluconi hefur neitað því að hann hafi verið í tygjum við stúlkuna, sem var undir lögaldri á þessum tíma. Hann hefur sagt að hann myndi segja af sér ef í ljós kæmi að hann hefði sagt ósatt um málið.

Hermt er að Letizia sjáist á nokkrum af myndunum sem Berlusconi vill að bannað verði að birta.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert