Umdeildur læknir skotinn til bana

George Tiller.
George Tiller. AP

Umdeildur læknir, sem framkvæmt hefur fóstureyðingaraðgerðir á konum sem voru langt komnar á meðgöngu, var skotinn til bana í dag, þar sem hann mætti til guðsþjónustu í kirkju sinni í Kansas í Bandaríkjunum.

Læknirinn, George Tiller, hafði áður orðið fyrir líkamsárásum vegna þess sem hann starfaði við, meðal annars lent í sprengjuárás og verið skotinn í báða handleggi. Hann var skotinn til bana um klukkan þrjú í dag.

Árásarmaðurinn flúði af vettvangi en lögregla tilkynnti síðar að karlmaður á sextugsaldri hefði verið handtekinn, grunaður um verknaðinn. 

Tiller var 67 ára gamall og var einn fárra lækna sem framkvæmdi fóstureyðingaraðgerðir á konum sem voru langt komnar á meðgöngu. Hann hefur sætt mjög harðri gagnrýni og illu umtali þeirra sem leggjast gegn fóstureyðingum, sem hafa reglulega haldið mótmælafundi fyrir utan læknastofu hans.

Árið 1986 kom einhver fyrir sprengju á þaki læknastofunnar og skemmdi bygginguna illa. Árið 1993 gerðist það svo að Tiller var skotinn í báða handleggi fyrir utan læknastofuna. Hann náði sér eftir þá árás og árásarmaðurinn var dæmdur í ellefu ára fangelsi. Um það bil tvö þúsund manns voru svo handteknir fyrir utan læknastofuna sumarið 1991 þegar mikil mótmæli voru þar fyrir utan.

Í mars síðastliðnum var hann sýknaður af ákæru fyrir að hafa framkvæmt nítján ólöglegar fóstureyðingar á árinu 2003.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert