„Hvalveiðibann ýtir undir veiðar"

Frá hvalstöðinni í Hvalfirði
Frá hvalstöðinni í Hvalfirði Reuters

Dr William Hogarth, sem verið hefur formaður Alþjóðahvalveiðiráðsins (IWC) síðastliðin þrjú ár, hefur látið að því liggja að það geti stuðlað að verndun hvala að fella bann við hvalveiðum í atvinnuskyni úr gildi. Þetta kemur fram á fréttavef BBC.

„Ég lendi sennilega í vandræðum fyrir að segja þetta opinberlega en ég er nokkuð sannfærður um það á þessari stundu að það væru færri hvalir veiddir væri hvalveiðibannið ekki í gildi," sagði hann og vísaði þar til banns við hvalveiðum í atvinnuskyni frá árinu 1982.

Hogath sagði bandaríska sérfræðinga hafa bent sér á að hvalveiðar í vísindaskyni, sem fram fari á grundvelli undartekningaákvæða hvalveiðibannsins, séu stundaðar í óþarflega miklu mæli og í raun án nokkurra reglna. Bendir hann á að Japanar veiði rúmlega 1.000 hvali á ári sem séu mun fleiri dýr en þeir þyrftu að veiða færu veiðarnar fram í atvinnuskyni.

Japanar segja nauðsynlegt að veiða svo mörg dýr til að tilraunir leiði til áreiðanlegra niðurstaðna. „Ég held ekki að það væri þörf á svo mörgum hvölum væri tilgangur veiðanna einungis að fullnægja eftirspurn," segir hann.

Þá segist hann telja ráðlegt að leyfðar verði takmarkaðar veiðar í atvinnuskyni fyrir innanlandsmarkaði undir ströngu eftirliti og samkvæmt ströngum reglum um útflutning hvalaafurða.  

Talið er að Japanar muni taka orðum hans vel en John Frizzell, talsmaður Greenpeace, segir mikilvægt að hvalveiðibannið verði áfram í gildi.

„Afnám hvalveiðibanns í atvinnuskyni væri mjög slæm hugmynd," sagði hann. „Fyrir hvalveiðibannið voru stofnar ofveiddir undir eftirliti og samkvæmt ráðgjöf IWC, þannig að einn af öðrum komst í útrýmingarhættu."

Hogarth lét orð sín falla undir lok ársfundar IWC sem lauk að mestu í gær. Í dag mun verða fundað í litlum hópum á vegum ráðsins um skipulag vinnufunda á næstu mánuðum.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert