Pútín gaf kommúnistaleiðtoga Kommúnistaávarpið

Rússneskir kommúnistar með rauða fána og myndir af Gennadí Zjúganov.
Rússneskir kommúnistar með rauða fána og myndir af Gennadí Zjúganov. AP

Vladímír Pútín, forsætisráðherra Rússlands, kom Gennadí Zjúganov, formanni rússneska kommúnistaflokksins, á óvart þegar hann gaf honum afmælisgjöf: gamla sovéska útgáfu af Kommúnistaávarpinu eftir Karl Marx og Friedrich Engels.

Pútín bauð rússneskum flokksleiðtogum heim í sumarhús sitt utan við Moskvu í gær. Í ávarpi sagði hann, að hugmyndir þeirra Marx og Engels væru áhugaverðar og mikilvægar. 

„Marx og Engels rannsökuðu þessi vandamál og ræddu um að kreppur endurtækju sig. Þeir hófu að skoða vandamálin, sem við köllum alþjóðavæðingu," sagði Pútín og bætti við, að enginn hefði enn fundið lausn á þessum vandamálum.

„En ég tel þessar rannsóknir áhugaverðar og mikilvægar og ég vil afhenda Gennadí Andrejevítsj fyrstu sovésku útgáfu Kommúnistaávarpsins í tilefni af 65 ára afmælisdegi hans. Til hamingju með afmælið!" 

Blaðið Kommersant sagði að Zjúganov hefði ljómað af ánægju við þessi orð Pútíns og sagt að þetta væri óvænt gjöf.  

Pútín sagði við Zjúganov, að hann gæti nú hresst upp á minnið með því að lesa bókina og síðan skýrt öðrum stjórnmálaleiðtogum frá niðurstöðum sínum. 

Kommúnistaflokkurinn stýrði Sovétríkjunum með harðri hendi frá árinu 1917 til 1991. Flokkurinn er nú lítill en samt nánast eini raunverulegi stjórnarandstöðuflokkurinn í Rússlandi. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert