Mannréttindi fótum troðin við Níger

Reuters

Olíufyrirtæki troða á mannréttindum íbúa Nígeríu, að sögn Amnesty International. Yfirvöld vilji ekki eða geti ekki látið fyrirtækin sæta ábyrgð. Samtökin skoðuðu mál Shell sérstaklega.

Amnesty International birtir í dag ítarlega rannsókn á áhrifum olíuvinnslu á óseyrum Nígerfljóts á mannréttindi íbúa svæðisins. Samtökin segja að ástandið á svæðinu sé mannréttindaharmleikur. Mannréttindi íbúa svæðisins hafa verið vanvirt af olíufyrirtækjum og yfirvöld vilja ekki eða geta ekki látið fyrirtækin sæta ábyrgð. 
 
Í tilkynningu frá Amnesty International segir að áhrif olíuvinnslu á mannréttindi íbúa við óseyra Nígerfljóts séu áhrifamikið dæmi um skort á ábyrgð yfirvalda gagnvart borgurum, og fullkominn skort á ábyrgð alþjóðlegra fyrirtækja á áhrifum starfsemi þeirra á mannréttindi.
 
Í skýrslu Amnesty International:  Nigeria: Petroleum, Pollution and Poverty in the Niger Delta, eru umhverfisáhrif olíuvinnslunnar skoðuð. Meirihluti þeirra upplýsinga sem fram koma í skýrslunni um mengun og umhverfisspjöll tengjast starfsemi Shell, en umfangsmesta olíuvinnsla á óseyrum Níger er á vegum þess fyrirtækis.
 
Áhrif mengunar á óseyrum Nígerfljóts á mannréttindi hafa fram til þessa verið lítið skoðuð. Meirihluti íbúa svæðisins eru fiskimenn og bændur, en olíumengunin hefur haft skelfilegar afleiðingar á ræktarlönd og fiskimið.

Stjórnvöld í Nígeríu hafa brugðist skyldum sínum um að vernda og virða réttindi íbúa til matar, vatns, heilsu og lífsafkomu. Sum olíufyrirtæki hafa nýtt sér aðgerða-og afskiptaleysi yfirvalda með algjörri vanrækslu gagnvart áhrifum starfsemi þeirra á mannréttindi.

Skýrsla Amnesty International sýnir glögglega hvernig skortur á ábyrgð stórfyrirtækja, þegar kemur að áhrifum starfsemi þeirra á mannréttindi, hefur leitt til alvarlegs mannréttindavanda sem viðgengst í skjóli refsileysis.
 
Rétturinn til heilsusamlegs umhverfis eru mannréttindi og Amnesty International krefst þess að olíufyrirtækið Shell geri hreint fyrir sínum dyrum og viðurkenni áhrif olíumengunar á mannréttindi íbúa á óseyrum Nígerfljóts. Samtökin krefjast þess jafnframt að olíumenguð svæði verði hreinsuð að fullu, samfélög hljóti bætur fyrir skaða af völdum olíumengunar, lögboðið og reglubundið mat á áhrifum olíuvinnslu á mannréttindi íbúa verði tryggt, og að þeir hafi fullan aðgang að upplýsingum um áhrifin á umhverfi sitt og mannréttindi. 

Í mótmælaskyni framferði Shell mun Íslandsdeildin standa fyrir farandljósmyndasýningu þann 1.júlí næstkomandi. Ljósmyndirnar sýna þau miklu umhverfispjöll og mannréttindabrot sem hlotist hafa af olíuvinnslu Shell við óseyra Nígerfljóts. Myndirnar eru eftir ljósmyndarann Kadir van Lohuizen en þær voru allar teknar á svæðinu árið 2008.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert