Þóttist vera kærastinn

Silvio Berlusconi
Silvio Berlusconi Reuter

Keppandi í raunveruleikaþætti í ítalska sjónvarpinu, Domenico Cozzolino, lýsir því yfir í viðtali við kvennablaðið Diva e Donna að hann hafi verið fenginn til að þykjast vera kærasti ungrar stúlku sem Silvio Berlusconi, forsætisráðherra Ítalíu, hefur verið sakaður um að vera í tygjum við.

Í viðtalinu við kvennablaðið, sem greint er frá á fréttavef BBC, segir Cozzolino, sem er 21 árs, að  meint ástarsamband hans við ungu stúlkuna, Noemi Letizia, hafi verið skipulagt eftir að forsætisráðherrann var gestur í 18 ára afmælisveislu hennar í apríl. Þrýst hefur verið á forsætisráðherrann að útskýra samband sitt við stúlkuna.

Eiginkona Berlusconis, Veronica Lario, hefur krafist skilnaðar og segir að hún geti ekki verið með manni sem sé í tygjum við ungar stúlkur. Forsætisráðherrann kvaðst eingöngu hafa farið í afmælisveisluna vegna þess að hann hafi verið í Napólí þann dag. Hann benti einnig á að hann væri gamall vinur fjölskyldu hennar.

Síðar hafa verið birtar myndir af þeim saman við ýmis tækifæri á síðasta ári en þá var stúlkan aðeins 17 ára. Forsætisráðherrann hefur staðfest að stúlkan hafi dvalið í húsi hans á Sardiníu og verið í veislu þar.

Í viðtalinu við kvennablaðið segir Cozzolino að stúlkan hafi beðið hann um að þykjast vera kærasti hennar þremur til fjórum dögum eftir afmælisveislu hennar í apríl. Stuttu seinna voru birtar myndir af þeim þar sem þau voru að kyssast í tímaritisem er gefið út af fyrirtæki í eigu Berlusconi fjölskyldunnar.

Ungi maðurinn segist ekki hafa talið við Letiziu frá því 7. júní. Hann segir að hann hafi verið sendur í burtu þar sem hann hafi vitað of mikið en bætir því við að enn hafi hann ekki sagt allan sannleikann.

Í síðasta mánuði vísaði ítalski forsætisráðherrann á bug ásökunum um  að hann hefði greitt vændiskonum fyrir að sæka veislur í opinberum bústað hans.

Ítalskir fjölmiðlar hafa birt myndir af berbrjósta konum og nöktum karli við hús forsætisráðherrans á Sardiníu og einnig af frægu fólki á leið til eyjunnar í embættisþotu hans.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert