Þúsundir fésbókarfærslna á mínútu um kónginn

Reuters

Talsmenn samskiptavefsins Facebook segja að notendur vefsins hafi sett inn yfir sex þúsund færslur á hverri mínútu í dag meðan þeir fylgdust með beinni útsendingu CNN sjónvarpsstöðvarinnar frá minningarathöfn um Michael Jackson.

Og þar er aðeins átt við færslur um poppkónginn og minningarathöfn um hann.

Randi Zuckerberg, markaðsstjóri Facebook, segir í samtali við AFP að færslufjöldinn sé mun hærri þegar færslur fésbókarnotenda sem fylgdust með útsendingu annarra sjónvarpsstöðva séu taldar með, eins og E! Online, ABC, og MTV en hver stöð um sig hefur eigin tengingar við samskiptavefinn í gegnum útsendingar sínar.

Sami háttur var hafður á þegar Barack Obama sór embættiseið sem forseti Bandaríkjanna. Þá var innsetningarathöfnin send beint út á vefjum sjónvarpsstöðvanna og áhorfendur gátu sett inn færslur meðan á útsendingunni stóð. Þegar mest var streymdu um átta þúsund færslur á mínútu um hinn nýja forseta og innsetningarathöfnina á fésbókarvefinn.

Það eru því allar líkur á að það met hafi verið slegið af fésbókarnotendum í dag. Þá segir markaðsstjóri fésbókarinnar að færslurnar tengdar minningarathöfn um Michael Jackson komi víðar að en þegar Obama sór embættiseið.

Fésbókarnotendur sem fylgdust með beinum útsendingum frá minningarathöfn um Michael Jackson settu inn hugleiðingar sínar um poppkónginn og upplýsingar sem þeir búa yfir meðan þeir fylgdust með útsendingum á vefjum sjónvarpsstöðvanna.

Elycia Cook Okay Brooke frá Japan skrifar t.d., „Ég sit hér í vinnunni í MJ bolnum mínum og reyni að koma einhverju í verk, milli þess sem ég græt og kíki á CNN.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert