Banna rafstuð gegn netfíkn

Ungir netnotendur í Kína.
Ungir netnotendur í Kína. Reuters

Stjórnvöld í Kína hafa bannað rafstuð sem meðferð gegn netfíkn. Talið er óvíst hvort úrræðið sé öruggt eða skilvirkt, en meðferðin hefur verið gagnrýnd af fjölmiðlum. Umdeildur sálfræðingur í Linyi í Shandong héraði hefur gefið nær þrjú þúsund unglingum rafstuð í þeim tilgangi að losa þá við netfíkn.

Kínversk yfirvöld hafa í rúmt ár staðið fyrir herferð gegn netfíkn, ungt fólk eyði  ótæpilegum tíma á netkaffihúsum, eða vefbörum eins og þau kallast á kínversku, og þetta komi niður á námi ungmenna og fjölskyldulífi. Þetta kemur fram á vef Reuters.

„Rafstuðsmeðferð gegn netfíkn [...] á sér engar stoðir í klínískum rannsóknum eða niðurstöðum þeirra og á því ekki rétt á sér sem læknisráð,“  segir í tilkynningu á vef kínverska heilbrigðisráðuneytisins.

Í fjölmennasta ríki heims eru nær 300 milljónir netnotenda samkvæmt upplýsingum stjórnvalda. Ýmis vandamál í tengslum við of mikla netnotkun hafa aukist, sér í lagi meðal kínverskra ungmenna sem leita undankomu frá þeim þrýstingi sem ofurvæntingar foreldra þeirra skapa. Meira en 200 stofnanir og samtök bjóða meðferð gegn „netröskun“ í Kína.

Dr. Yang Yongxin, höfundur rafstuðsmeðferðarinnar, gefur sjúklingum sínum geðlyf ásamt rafstuði gegn 5.500 júana gjaldi á mánuði, sem eru um hundrað þúsund krónur. Hinir ungu netfíklar eru flestir skikkaðir í meðferðina af foreldrum sínum, og þeim er meinað að hafa samband við umheiminn á meðan á meðferð stendur.

Hvorki Yang né hinir sex samstarfsmenn hans eru með réttindi til að stunda sálfræðimeðferðir á fólki.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert