Unglingur lifir af þolraun

Breskur unglingur hefur verið heimtur úr helju í óbyggðum Ástralíu þar sem hann lifði af í 12 daga með því að borða plöntur og sofa undir jakkanum sínum. Tveir ferðamenn fundu Jamie Neale, 19 ára, fyrir tilviljun í Bláfjöllum, vestur af Sydney í Ástralíu í gær. 

Drengurinn var uppgefinn þegar hann fannst en að mestu leyti ómeiddur. Hann sást síðast um morguninn 3. júlí en allur farangur hans og farsími voru enn inni á hótelherbergi hans.

 „Hann er líklega eini unglingurinn í heiminum sem fer í 15 kílómetra langa fjallgöngu og skilur farsímann sinn eftir,“ sagðir faðir Neale, sem var á leið aftur til Bretlands þegar hann fékk fréttirnar um að sonur hans hefði fundist. 

Gríðarleg leit var gerð að piltinum og var notast við allt frá þyrlum til hunda.

„Ég þarf að taka í lurginn á honum. Það var milljónum eytt í þessa leit og mikill tími fólks fór í hana einungis vegna þess að hann fer í gönguferð án þess að vera með farsíma,“ sagði faðirinn.

Frá Bláfjöllum í Ástralíu.
Frá Bláfjöllum í Ástralíu.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert