30 Fönikíumenn hjá Berlusconi

Berlusconi og Medvedev. Sá fyrrnefndi heldur að sögn umtalsvert upp …
Berlusconi og Medvedev. Sá fyrrnefndi heldur að sögn umtalsvert upp á rúm í sinni eigu sem forveri þess síðarnefnda svaf eitt sinn í. Reuters

Silvio Berlusconi, forsætisráðherra Ítalíu, hefur ekki tilkynnt að 30 forsögulegar grafir sé að finna á landareign hans eins og fram kemur á upptöku sem sögð er geyma rödd hans. Þetta kemur fram á vefsíðu BBC.

Áður hefur verið sagt frá því að fylgdardaman Patrizia D'Addario hafi komið fram með upptökur sem hún segir innihalda samtöl milli hennar og forsætisráðherrans. Vikublaðið L'Espresso birti svo upptökurnar á heimasíðu sinni. Á einni upptökunni segir karlmannsrödd D'Addario meðal annars að bíða eftir honum á „rúmi Pútíns“ sem mun vera í eigu Berlusconi.

Í annarri upptöku heyrist karlmaður gorta sig við konu af tröllaukinni villu sinni á Sardiníu. Að sögn ræðast þar Berlusconi og D'Addario við.

„Hér fundum við svo 30 fönikískar grafir frá um 300 árum fyrir Krist,“ heyrist karlmannsröddin skyndilega segja. Yfirvöld segja engar tilkynningar hafa borist frá forsætisráðherranum um þennan ætlaða fornleifafund hans.

Þingmenn úr stjórnarandstöðu hafa kallað eftir rannsókn á málinu og segja að ef á landareign Berlusconi fyndust 30 forsögulegar grafir væri það geysilega merkilegur fornleifafundur.

Berlusconi viðurkenndi í vikunni, í kjölfar ásakana um ítrekuð kynlífshneyksli, að hann væri „enginn dýrlingur“.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert