Ferðamönnum fækkar um 10% á Spáni

Ekki komast jafnmargir á sólarstrendur og vilja vegna efnahagsástandsins, þ.á.m. …
Ekki komast jafnmargir á sólarstrendur og vilja vegna efnahagsástandsins, þ.á.m. Bretar. STR

Spánverjar gera ráð fyrir að komur erlendra ferðamanna til landsins muni falla um allt að 10% á þessu ári vegna heimskreppunnar fyrst og fremst, að sögn iðnaðar- og ferðamálaráðherrans Miguel Sebastian.

„Við spáum því að við lok ársins verði heildartölurnar skárri en það sem við sjáum núna. Við munum vissulega sjá mikinn samdrátt í komum ferðamanna en það verður ekki meira en 10 prósent,“ sagði Sebastian á ferðamannaeyjunni vinsælu Mallorca í dag.

Samdráttinn má fyrst og fremst rekja til færri heimsókna frá Bretum. Á fyrsta árshelmingi 2009 varð 11,4% samdráttur í heimsóknum erlendra ferðamanna til Spánar frá sama tíma í fyrra, niður í 23,6 milljónir samkvæmt opinberum tölum. Fjöldi breskra gesta dróst saman um 16,6%.

Spánn missti í fyrra sæti sitt sem annað mest sótta land í heimi til Bandaríkjanna. Frakkland er hinsvegar ennþá vinsælasta ferðamannaland í heimi. Ferðamannaiðnaðurinn stendur undir 11% af störfum og ársframleiðslu Spánar, fyrst og fremst í gegnum sólarstrandirnar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert