Reyndu að lækna dóttur sína með bænum

Dale Neumann ásamt Jay Kronenwetter, lögmanni sínum.
Dale Neumann ásamt Jay Kronenwetter, lögmanni sínum. AP

Bandarískur kviðdómur hefur sakfellt karlmann fyrir manndráp en maðurinn kom í veg fyrir að 11 ára gömul dóttir hans fengi læknishjálp þegar hún þjáðist af bráðri sykursýki. Þess í stað reyndi hann að lækna stúlkuna með bænahaldi.  Móðir stúlkunnar var einnig sakfelld fyrir manndráp fyrr á þessu ári.

Maðurinn, sem heitir Dale Neumann, bar fyrir réttinum í Wisconsin, að hann hefði trúað því að Guð myndi lækna dóttur hans. Stúlkan veiktist alvarlega í mars á síðasta ári og í ljós kom við krufningu að hún hafði fengið sykursýki. Sérfræðingar báru, að stúlkan hefði læknast hefði hún fengið rétta meðferð, þar á meðal insúlinsprautur.

Neumann, sem er 47 ára og hefur starfað í hvítasunnusöfnuði í Wisconsin, sagðist hafa talið að ef hann leitaði til læknis vegna dóttur sinnar væri hann að taka lækninn fram yfir Guð. Þá sagðist hann ekki hafa gert sér grein fyrir því hvað stúlkan var veik og talið að hún væri með inflúensu. 

Neumann og Leilani, kona hans, eiga bæði yfir höfði sér allt að 25 ára fangelsi en refsing þeirra verður ákveðin í október. Þau ætla að áfrýja dómnum, að sögn lögmanna þeirra.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert