Konur krefjast þess að fá að ganga í buxum

Súdanska lögreglan notaði táragas til að tvístra hópi mótmælenda sem höfðu safnast saman fyrir framan dómshúsið í höfuðborginni Khartoum. Þar hefur réttarhöldum yfir súdönskum blaðamanni sem sætir ákæru fyrir ósiðsemi verið frestað í annað sinn.

Lubna Ahmed al-Hussein var handtekin fyrir að hafa verið í síðbuxum sem voru ekki taldar við hæfi. Hún sagði við stuðningsmenn sína að rétturinn vildi fá það skýrt hvort það mætti rétta yfir henni en hún er fyrrum starfsmaður Sameinuðu þjóðanna. Hún segist ekki vita af hverju þeir séu að þessu þar sem hún hafi sagt upp starfi sínu hjá SÞ. Sér finnist líklegt að dómstóllinn vilji tefja málið.

Al-Hussein starfaði sem fréttafulltrúi SÞ þegar hún var handtekin en hefur síðan reynt að fá það hrakið að ekki megi lögsækja hana vegna diplómataréttinda þar hún vill láta reyna á lög er varða fatnað kvenna.

Varnarlögfræðingur segir í viðtali við Al Jazeera að ágreiningur sé um málið meðal hennar eigin lögfræðiteymis og að einn lögfræðingur í teyminu hafi beðið dómarann um að hunsa mótmæli al-Hussein.

Næsti réttardagur hefur verið settur þann 7. september.

Lögreglan dreifði hópi hundruða kvenna og aðgerðarsinna úr hópi stjórnarandstæðinga sem hafði safnast saman fyrir framan dómshúsið, til stuðnings al-Hussein.

Sumar kvennanna voru í buxum, til merkis um samstöðu með al-Hussein og aðrar héldu á borðum eða voru með ennisbönd sem á stóðu: Snúum ekki aftur til miðalda.

Lögreglan handtók al-Hussein ásamt tólf öðrum konum í buxum á veitingastað í júlí. Tíu þeirra samþykktu refsinguna sem var tíu svipuhögg en al-Hussein og tvær aðrar konur ákváðu að þær vildu koma fyrir rétt.

Kvenréttindahópar segja að ekkert í Kóraninum segi að refsa skuli konum fyrir klæðnað. Þá séu lögin mjög óskýr þegar kemur að skilgreininu á því hvað sé ósiðsamlegur klæðnaður og því sé það álit hvers og eins lögreglumanns sem ráði.


Konur í Súdan vilja geta gengið í buxum án þess …
Konur í Súdan vilja geta gengið í buxum án þess að þurfa að óttast svipuhögg. mbl.is/Golli
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert