Þotan hafnaði á flugturni

Flugstjóri lést og að minnsta kosti tíu farþegar slösuðust þegar þota með um 70 manns innanborðs rann út af flugbraut og hafnaði á flugturni á ferðamannaeyjunni Koh Samui, sunnan við Bangkok í Tælandi.

Slysið varð klukkan átta í morgun að íslenskum tíma. Þotan sem er í eigu Bangkok Airways var að koma frá Krabi í Tælandi. Skömmu eftir lendingu á flugvellinum á Koh Samui hlekktist þotunni á og hafnaði hún á flugturni vallarins.

Að sögn flugvallaryfirvalda gekk greiðlega að rýma vélina. Áreksturinn var mjög harður og voru tíu manns að minnsta kosti fluttir á sjúkrahús. Enginn þeirra er þó lífshættulega slasaður.

Talið er að brautarskilyrði á flugvellinum hafi verið léleg en úrhellisrigning var á eyjunni þegar slysið varð.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert