Deilt um aðgerðir gegn flóttamönnum

Aðgerðir lögreglu í Kaupmannahöfn í nótt gegn hópi flóttamanna sem neitað hefur verið um hæli í landinu, hafa vakið hörð viðbrögð og deilur meðal forsvarsmanna stjórnarandstöðuflokkanna í landinu. Þetta kemur fram á fréttavef Jyllands-Posten. 

Stjórnarflokkarnir hafa lýst stuðningi við aðgerðir lögreglunnar en forsvarsmenn jafnaðarmanna hafa ekki talað einum rómi í málinu í dag.

„Það er alveg ljóst að þær myndir sem við höfum séð frá Brorsons kirkju snerta tilfinningar okkar allra,” sagði Helle Thorning-Schmidt, formaður flokksins. „Við verðum hins vegar að standa fast við það að í Danmörku eru það lögin sem gilda og það þýðir að hafi flóttamenn ekki fengið hæli í Danmörku þá mega þeir ekki vera í landinu. Við styðjum því aðgerðirnar.” 

Poul Nyrup Rasmussen, fyrrum forsætisráðherra flokksins, hefur hins vegar gagnrýnt aðgerðirnar og tímasetningu þeirra. „Lögreglan ræðst inn í kirkju þar sem fólk, sem er að mestu saklaust, heldur til sama dag og yfirvöld í Írak setja ný spurningarmerki við það hvort þau geti tekið á móti þessum flóttamönnum,” sagði hann.

„Ég hef miklar áhyggjur af því hvernig Sameinuðu þjóðirnar muni líta áframkomu okkar við þetta fólk. Við höfum farið yfir mörk mannúðar og hófsemi.”

Villy Søvndal, formaður Sósíalíska þjóðarflokksins, tekur í sama streng og segist telja það blett á Danmörku að lögreglumenn fari að nóttu til inn í kirkju þar sem óbreyttir borgarar hafi leitað skjóls.

Segist hann telja að Birthe Rønn Hornbech, ráðherra innflytjendamála eigi að fara yfir mál hvers flóttamanns fyrir sig en margir þeirra sem um ræðir hafa búið sem flóttamenn í Danmörku árum saman.

Hann segir flokkinn þó ekki fylgjandi því að sett verði sérstök lög sem nái til þessa hóps líkt og gert var vegna hóps Palestínumanna árið 1992.

Talsmenn stjórnarflokkanna segja hins vegar að nauðsynlegt hafi verið að rýma kirkjuna og að lögregla hafi sinnt því erfiða verkefni af stakri prýði.

„Lögregla leysti verkefnið í Brorsons kirkju vel af hendi. Það á enginn að fá sérmeðferð bara af því að hann leitar skjóls í kirkju,” segir Brian Mikkelsen, dómsmálaráðherra Danmerkur.„Ég held að það hefðu allir viljað komast hjá því að beita valdi en við búum í lýðræðissamfélagi sem byggir á því að fólk fylgir lögum og reglum í landinu. Og fólk fær ekki sérmeðferð af því að það hefur lagt undir sig kirkju."

Peter Skaarup, talsmaður Danska þjóðarflokksins í utanríkis- og innflytjendamálum, hrósar lögreglunni sérstaklega fyrir að ráðast í aðgerðina að nóttu til.  „Hugsið ykkur hvernig þetta hefði verið hefði þetta átt sér stað í dagsbirtu og allir hefðu getað séð það sem fram fór. Það hefði valdið mun meiri usla,” segir hann. „Við höfum varað við því frá upphafi að þeir hafi fengið að koma sér fyrir og þeim verið færður matur þangað. Við vöruðum við því bæði þegar þeir voru í Vorrar frúar kirkju og Brorsons kirkju."

Sautján karlmenn, sem eru Kúrdar og Írakar, voru handteknir í Brorsons kirkjunni í nótt. Konur og börn voru einnig í kirkjunni en þau voru ekki handtekin.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert