Rændu elliheimili og myrtu starfsmann

Tveir vopnaðir menn rændu vistheimili fyrir aldraða í úthverfi í Brussel í dag, myrtu einn starfsmann og slösuðu annan. Að sögn lögreglu er vaxandi glæpaalda í landinu. Mennirnir réðust inn og kröfðust peninga, en þeir höfðu fyrr um morguninn leikið sama leik á öðru vistheimili.

Þegar tveir starfsmenn á síðara heimilinu, Home Brugmann, reyndu að verjast árásinni voru þeir skotnir og lést annar þeirra. 125 vistmenn búa á Home Brugmann. Engin andspyrna hafði verið sýnd á fyrra heimilinu og þar særðist enginn.

Ræningjarnir flúðu á mótorhjóli en ekki er vitað hve mikið fé þeir höfðu meðferðis. Annar þeirra var handtekinn síðar um daginn, að því er fram kemur á vef blaðsins Le Soir. Talið er líklegt að hinn náist einnig.

Árásirnar auka á áhyggjur um öryggi á stofnunum og heimilum fyrir unga og aldna í Belgíu. Fyrr í þessum mánuði létust níu manns í eldsvoða á vistheimili í Ghent, í janúar stakk tvítugur maður tvö ungabörn og starfsmann dagheimilis í bænum Termonde. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert