CIA réði Blackwater til morða

Öryggisverðir frá Blackwater gæta Paul Bremer, þáverandi landstjóra í Írak, …
Öryggisverðir frá Blackwater gæta Paul Bremer, þáverandi landstjóra í Írak, árið 2004. Reuters

Bandaríska leyniþjónustan CIA réði öryggisfyrirtækið Blackwater árið 2004 til starfa við leynilega áætlun um að finna og drepa al Qaeda-leiðtoga. Bandarískir fjölmiðlar hafa þetta í dag eftir núverandi og fyrrverandi leyniþjónustumönnum. Áætlunin komst þó aldrei á framkvæmdastig þótt milljónum dala hafi verið varið til að undirbúa hana.

Blaðið New York Times segir í dag, að aðalástæða þess, að Leon Panetta, núverandi forstjóri CIA, stöðvaði áætlunina í sumar hafi verið að utanaðkomandi fyrirtæki átti þar hlut að máli.

Panetta fékk upplýsingar um áætlunina í júní og stöðvaði í kjölfarið frekari aðgerðir. Hann veitti þingmönnum síðan upplýsingar um málið en þeir höfðu ekki fengið neinar upplýsingar um þessa áætlun síðan árið 2001.

New York Times hefur eftir embættismönnum, að CIA hafi gert sérstaka samninga við yfirmenn hjá Blackwater vegna áætlunarinnar en ekki formlegan samning við fyrirtækið sjálft.

Bandaríska utanríkisráðuneytið sleit samstarfi við Blackwater eftir að fram komu ásakanir um að fyrirtækið hefði farið fram með ósæmilegum hætti í Írak. Fyrirtækið hefur nú skipt um nafn og heitir nú Xe.

Washington Post segir í dag, að Blackwater hafi fengið milljónir dala af opinberu fé til að þjálfa starfsmenn og kaupa vopn og búnað í tengslum við áætlun CIA. Áætluninni var hins vegar aldrei hrint í framkvæmd að öðru leyti.  

Þingmenn úr röðum demókrata hafa sakað Dick Cheney, fyrrverandi varaforseta Bandaríkjanna, um að misnota vald sitt með því að skipa CIA að halda upplýsingum um þessa áætlun leyndi fyrir Bandaríkjaþingi. 

Bandaríkjastjórn réði Blackwater til að sinna öryggisgæslu í Írak í kjölfar innrásarinnar þar árið 2003. Fyrirtækið hefur haft um 1100 manna starfslið þar. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert