Skotar í vörn vegna Lockerbie

Alex Salmond, forsætisráðherra heimastjórnar Skotlands, sagði í dag að Robert Mueller, forstjóri bandarísku alríkislögreglunnar FBI, ætti ekkert með að gagnrýna að skosk stjórnvöl hefðu leyst Líbýumanninn Abdelbaset al-Megrahi úr haldi í síðustu viku af mannúðarástæðum.

Mueller sendi skosku stjórninni bréf í gær þar sem hann gagnrýnir harðlega að al Megrahi skyldi hafa verið látinn laus af mannúðarástæðum. Sagði Mueller m.a. að þessi ákvörðun væri hryðjuverkamönnum um allan heim mikil huggun.  

Salmond sagði í viðtali við breska ríkisútvarpið BBC í morgun, að Mueller hefði líklega vanmetið þann mikla stuðning, sem væri við ákvörðun Skota. Al Megrahi er dauðvona og er aðeins talinn eiga nokkrar vikur eftir ólifaðar.

Fullyrðingar hafa komið fram um, að bresk stjórnvöld hafi beitt sér fyrir að Líbýumaðurinn yrði látinn laus í von um að það muni greiða fyrir olíuviðskiptum við Líbýumenn. Bretar hafa vísað þessu á bug. 

Gordon Brown, forsætisráðherra Breta, og Muammar Gaddafi, Líbýuleiðtogi, áttu stuttan fund á Ítalíu í sumar í tengslum við leiðtogafund svonefndra G8 ríkja þar. Breskir embættismenn hafa sagt, að Gaddafi hafi þar rætt um mál al-Megrahi en Brown hafi svarað að það mál væri í höndum skoskra stjórnvalda.

En í gær fengu bresk blöð afrit af bréfi, sem Brown sendi Gaddafi sl. fimmtudag, sama dag og al-Megrahi var látinn laus. Þar biður Brown Gaddafi að sjá til þess, að ekki verði tekið með formlegum hætti á móti al-Megrahi til að særa ekki fjölskyldur þeirra 270 manna, sem fórust þegar sprengja sprakk í bandarískri flugvél yfir Lockerbie á Skotlandi árið 1988. Al-Megrahi var sakfelldur fyrir að hafa komið sprengjunni fyrir.

Í bréfinu vísar Brown einnig til samtalsins, sem þeir Gaddafi áttu á Ítalíu:

„Þegar við hittumst lagði ég áherslu á, að ef skoska þingið ákvæði að Megrahi geti farið aftur til Líbýu þá ætti það að vera einkamóttökuathöfn með fjölskyldunni en ekki opinber móttökuathöfn."

Þetta þykir sýna, að ákvörðunin um að leysa al-Megrahi úr haldi hafi verið langt komin í sumar og að Brown hafi vitað nóg um málið til að reyna að setja Líbýumönnum skilyrði. Líbýumenn hunsuðu hins vegar tilmæli Breta og hafa fagnað al-Megrahi eins og þjóðhetju.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert