Skoska þingið til neyðarfundar

Muammar Gaddafi Líbýuleðtogi faðmar Megrahi að sér við komu hans …
Muammar Gaddafi Líbýuleðtogi faðmar Megrahi að sér við komu hans til Líbýu. AP

Heimastjórnarþing Skotlands mun koma saman til neyðarfundar í dag vegna harðrar gagnrýni á þá ákvörðun Kenny MacAskill, dómamálaráðherra Skotlands, að láta Líbýumanninn Abdel Baset al Megrahi lausan úr fangelsi. Þetta kemur fram á fréttavef CNN.

Hefur heimastjórnarþingið verið kallað úr sumarfríi viku fyrr en áætlað var vegna málsins.Alex Salmond, forsætisráðherra heimastjórnar Skotlands, hefur staðhæft að rétt ákvörðun hafi verið tekin á réttum forsendum í málinu.

Gagnrýnendur ákvörunarinnar halda því hins vegar fram að bresk yfirvöld hafi beitt sér fyrir að Líbýumaðurinn yrði látinn laus í von um að það muni greiða fyrir olíuviðskiptum við Líbýu.

Á meðal þeirra sem gagnrýnt hafa ákvörðunina eru Robert Mueller, forstjóri bandarísku alríkislögreglunnar FBI, og Jack McConnell, fyrrum forsætisráðherra Skotlands.

„Ég tel mjög mikilvægt að þing Skotlands sendi skýr skilaboð um það að það hafi verið skoska stjórnin en ekki skoska þingið sem tók ákvörðunina og að hún hafi ekki notið stuðnings Skota,” sagði McConnell.

Mikil reiði ríkir í Bandaríkjunum meðal málsins og hafa Bandaríkjamenn verið hvattir til að sniðganga skoskar og breskar vörur vegna málsins. 

Megrahi hafði setið átta ár í fangelsi í Skotlandi er hann var látinn laus og sendur til Líbýu en hann var sakfelldur fyrir að standa á bak við sprengingu í flugvél Pan Am flugfélagsins sem fórst yfir bænum Lockerbie í Skotlandi árið 1988. 270  manns létu lífið í tilræðinu.

Megrahi er sagður dauðvona og var látinn laus af mannúðarástæðum. Hann er nú sagður ætla að gefa út æviminningar sínar og halda þar fram sakleysi sínu.
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert