Rænt fyrir 18 árum og gaf sig fram í vikunni

Jaycee Lee Dugard ellefu ára gömul. Henni var rænt á …
Jaycee Lee Dugard ellefu ára gömul. Henni var rænt á leið að skólabílnum.

Ung stúlka sem segir að sér hafi verið rænt fyrir 18 árum síðan gaf sig fram á lögreglustöð í Kaliforníu í vikunni. Henni var rænt að föður sínum aðsjáandi þegar hún var ellefu ára gömul. Móðirin segir stúlkuna vera dóttur sína.

Stúlkan gekk inn á lögreglustöð í Kaliforníu síðastliðinn miðvikudag og tilkynnti að hún væri Jaycee Lee Dugard, stúlka sem rænt var við Tahoe vatn árið 1991, þegar hún var á leið að skólabílnum.

Stjúpfaðir stúlkunnar sagði að móðirin hefði fengið ótrúlegt símtal á miðvikudag frá alríkislögreglunni.

,,Alríkislögreglan hringdi og sagði að Jaycee væri komin í leitirnar, óhult," sagði Carl Probyn, faðir stúlkunnar, í símaviðtali. ,,Þeir réttu stúlkunni símann og konan mín fyrrverandi talaði við hana. Hún er sannfærð um stúlkan sé dóttir okkar, Jaycee. Jaycee mundi eftir öllu," sagði Probyn. Þau hjónin skildu í eftirleik ránsins. Hún er nú á leið að hitta dóttur sína. ,,Þetta er kraftaverk því eftir átján ár er maður búinn að gefa upp alla von," sagði hann.

Yfirvöld segja að tveir séu í haldi vegna málsins. Verið er að sanna réttmæti framburðar stúlkunnar með DNA rannsókn en lögreglan segist sannfærð um að niðurstöðurnar verði þær að stúlkan segi satt. Lögreglan hefur boðað til fréttamannafundar síðar í dag vegna málsins.

Það var að morgni hins 10. júní, 1991, að hin ellefu ára Jaycee yfirgaf heimili sitt við suðurhluta Tahoe vatns, klædd í bleika blússu og bleikt pils. Hún var á leið að ná skólavagninum.

Faðir hennar, Carl Probyn, fylgdist með henni þar sem hann stóð á bílastæðinu og sá hvar grár stationbíll nam staðar við hlið hennar. Einhver greip Jaycee og dró hana inn í bílinn. Þrátt fyrir að lögreglan brygðist hratt við og faðirinn hefði verið vitni fannst litla stúlkan aldrei.

Grunsemdir leiddu til húsleitar árið 2002 en ekkert kom út úr því.


mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert