Obama kvaddi vin og læriföður

Barack Obama forseti Bandaríkjanna flutti kveðjuorð við útför Edwards Kennedy öldungardeildarþingmanns í Boston í dag og sagði hann hafa verið vin sinn og læriföður. Obama sagði einnig að Kennedy hafi verið „mesti löggjafi okkar tíma“.

Obama forseti sagði í minningarorðum sínum að hann hafi þekkt Edward Kennedy sem „félaga, læriföður og framar öllu sem vin“. Hann kallaði öldungardeildarþingmanninn heitinn „góðviljaða og blíðlynda hetju“ að því er fréttavefur BBC greinir frá.

„Hann barðist fyrir þá sem engan málsvara áttu, var sálin í Demókrataflokknum og ljónið í öldungadeild Bandaríkjaþings,“ sagði Obama að því er AFP fréttastofan greinir frá. Obama rifjaði upp sum af þeim áföllum sem fjölskylda Kennedys hefur orðið fyrir og sagði: „Það er atburðarás sem hefði brotið niður minni mann... en það átti ekki við Ted Kennedy.“

Þá sagði Obama að seigla og gott skap Ted Kennedys hafi hjálpað honum í gegnum meiri hörmungar og sársauka en flestir aðrir þurfa nokkru sinni að þola.

Eftir athöfnina í Boston var flogið með kistuna til Washington. Hún verður jarðsett í Arlington þjóðargrafreitnum þar sem bræður Edwards, þeir John og Robert, hvíla.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert