Lýðræðisflokkurinn sigraði

Hatoyama, leiðtogi Lýðræðisflokksins sem var í stjórnarandstöðu í Japan, veifaði …
Hatoyama, leiðtogi Lýðræðisflokksins sem var í stjórnarandstöðu í Japan, veifaði til stuðningsmanna þegar kosningabaráttunni lauk fyrir kosningarnar í dag. Reuters

Lýðræðisflokkurinn í Japan, sem hefur setið í stjórnarandstöðu, vann stórsigur í þingkosningunum þar í landi í dag. Þetta er samkvæmt útgönguspám fjölmiðla sem birtar voru eftir að kjörstöðum var lokað. Því  virðist sem að endi sé bundinn á langvarandi valdaskeið Frjálslynda lýðræðisflokksins.

Samkvæmt útgönguspá TV Asahi sjónvarpsstöðvarinnar var því spáð að Lýðræðisflokkur Japans myndi vinna 315 þingsæti í neðri deild japanska þingsins. Í deildinni eru 480 þingsæti. Önnur ljósvakastöð í Tokýó spáði því að stjórnarandstöðuflokkurinn, sem þykir vinstra megin við miðju, myndi vinna 321 þingsæti.

Ríkisútvarpsstöðin NHK spáði Lýðræðisflokknum frá 298 til 329 þingsætum og að Frjálslyndi lýðræðisflokkur Taro Aso forsætisráðherra fengi á bilinu 84-131 þingsæti.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert