Ítalir vilja að ESB fordæmi Aftonbladet

Carl Bildt, utanríkisráðherra Svíþjóðar.
Carl Bildt, utanríkisráðherra Svíþjóðar. Reuters

Utanríkisráðherra Ítalíu, Franco Frattini, hefur í símaviðtali við ísraelska dagblaðið Haaretz lýst því yfir að hann ætli að krefjast þess að Evrópusambandið, ESB, fordæmi grein í sænska blaðinu Aftonbladet um meinta sölu ísraelskra hermanna á líffærum úr föllnum Palestínumönnum.

Frattini, sem er flokksbróðir Berlusconis forsætisráðherra Ítalíu, vill að á fundi utanríkisráðherra ESB, sem haldinn verður í Stokkhólmi á föstudag og laugardag, verði samin ályktun þar sem hvers kyns gyðingahatur sé fordæmt.

Frattini segir í viðtalinu að hann og Carl Bildt, utanríkisráðherra Svíþjóðar, hafi á síðasta fundi sínum verið sammála um að utanríkisráðherrar ESB eigi að fordæma gyðingahatur á fundinum í Stokkhólmi.

Samkvæmt frétt á vef sænska blaðsins Dagens Nyheter kveðst Bildt ekki hafa rætt við ítalska utanríkisráðherrann um ágreining ísraelskra og sænskra stjórnvalda vegna greinarinnar í Aftonbladet.

Sænsk stjórnvöld hafa neitað að fordæma blaðagreinina og vísa í ákvæði í stjórnarskránni um tjáningarfrelsi.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert