Bóluefni fyrir helming fólks

Nú er sagt að ein bólusetning nægi gegn A(H1N1) veirunni.
Nú er sagt að ein bólusetning nægi gegn A(H1N1) veirunni. Reuters

Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin (WHO) segir að lyfjafyrirtæki geti einungis framleitt þrjá milljarða skammta af bóluefni gegn svínainflúensu á ári. Það nægir ekki til að bólusetja helming jarðarbúa.

Prófanir hafa sýnt að ein bólusetning sé nægileg vörn gegn A(H1N1) veirunni og að bóluefnið sé jafn öruggt og bóluefni gegn árstíðabundinni inflúensu. 

Í yfirlýsingu WHO segir að prófanir sem gerðar hafa verið til þessa bendi til þess að bóluefni gegn útbreiddum farsóttum séu jafn örugg og bóluefni gegn árstíðabundinni inflúensu. Þá segir WHO að aukaverkanir bóluefna gegn farsóttum séu svipaðar og þekktar eru frá bóluefnum gegn árstíðabundnum pestum.

Einkennin eru hiti, höfuðverkur, vöðva- eða beinverkir, og þau ættu að vera væg og hverfa eftir um tvo daga í mesta lagi. MariePaule Kieny, sem stýrir bóluefnarannsóknum WHO, sagði að eftir að um 44 þúsund voru bólusettir í Kína hafi komið upp 14 tilfelli aukaverkana. Þau tilvik hafi þó öll verið væg.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert