Fæddi barn og skilar því svo

Kona komin langt á leið
Kona komin langt á leið Kristinn Ingvarsson

Bandarísk kona sem fékk egg annarrar konu í frjósemisaðgerð hefur nú fætt dreng. Carolyn Savage og eiginmaður hennar Sean fengu að vita af ruglingnum í febrúar en ákváðu að eignast barnið engu að síður og koma því svo til réttmætra foreldra þess. Savage fjölskyldan óskaði hjónunum Shannon og Paul Morell til hamingju með fæðingu barnsins. Þetta kemur fram á fréttavef BBC. 

Drengurinn fæddist á St Vincent Mercy sjúkrahúsinu í Toledo, Ohio. Carolyn Savage segir að fjölskyldan fari í gegnum erfiða tíma. „Fjölskyldan er snortin og þakklát vegna stuðnings og bæna svo margra um allan heim,“ segir Savage fjölskyldan í yfirlýsingu. „Okkur langar líka að þakka heilbrigðisstarfsfólki sem veitti okkur bestu umönnun og meðferð á meðgöngunni og við fæðinguna.“

Fyrr í vikunni sagði Carolyn Savage, sem er fertug, að maðurinn hennar hefði sagt henni af ruglingnum í febrúar. Stofan sem kom eggjunum fyrir í legi Carolyn hafði greint honum frá mistökunum símleiðis.  „Ég held ég hafi aldrei grátið jafn mikið á ævinni. Þetta var martröð og mikil óvirðing,“ sagði Savage í samtali við CNN. 

Savage fjölskyldan á þrjú börn fyrir, þar af eitt sem þau eignuðust með glasafrjóvgun.  

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert