Höfuðkúpa Hitlers sögð tilheyra konu

Adolf Hitler á fjöldafundi í Þýskalandi árið 1937.
Adolf Hitler á fjöldafundi í Þýskalandi árið 1937.

Bandarískur vísindamaður segir að DNA-rannsókn hafi leitt í ljós að höfuðkúpa, sem hefur löngum verið talin vera af Adolf Hitler, sé af konu en ekki nasistaleiðtoganum.

Sovéskir hermenn tóku höfuðkúpuna með sér þegar þeir fundu brenndar leifar hennar fyrir utan neðanjarðabyrgi Hitlers í Berlín árið 1945. Rússar hafa haldið því fram að höfuðkúpan sé sönnun þess að Hitler hafi skotið sjálfan sig til bana 30. apríl árið 1945. Lík hans, ásamt eiginkonu sinni, Evu Braun, hafi síðan verið brennt. Þetta kemur fram á fréttavef Sky.

Fornleifa- og beinafræðingurinn Nick Bellantoni heldur því hins vegar fram að höfuðkúpan tilheyri konu, sem hafi verið yngri en 40 ára. Hitler var 56 ára þegar hann lést. 

Bellantoni segir jafnframt að höfuðkúpan tilheyri ekki Evu Braun, en talið er að hún hafi framið sjálfsvíg með því að taka blásýru. Á höfuðkúpunni er skotsár, sem passar ekki við dauðdaga Braun. 

Sumir sagnfræðingar telja að Hitler hafi ekki látist í Berlín. „Það liggja engin réttarrannsóknargögn fyrir sem segja að Hitler hafi látist í byrginu,“ segir sagnfræðingurinn og blaðamaðurinn Gerrard Williams.

„Æðsta stjórn nasista hafði unnið að því frá árinu 1943 að yfirgefa Þýskaland og setja fjórða ríkið á fót, aðallega í Suður-Ameríku, svo það þarf ekki að vera að þeir hafi látist í Þýskalandi.“

Williams telur að ein ástæða þess að margir hafi trúað því, við lok síðari heimsstyrjaldarinnar, að þetta væri höfuðkúpa Hitlers sé sú að fólk hafi orðið að trúa því að Hitler væri látinn. „Allir vildu loka þessum kafla fljótt vegna þess að Kaldastríðið var að hefjast. Þetta var hentugt.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert