Barnalæknir dæmdur fyrir kynferðisbrot gagnvart börnum

Reuters

Barnalæknir í Bandaríkjunum var fyrr í dag dæmdur sekur fyrir að hafa ásamt tvíburabróður sínum misnota unga stráka og unglinga sl. tuttugu ár. Maðurinn var fundinn sekur um sextán kynferðisbrot, en hann notaði læknastofu þeirra bræðra í borginni Hamilton í Ohio-fylki til þess að fremja brotin.

Bræðurnir sem eru á sextugsaldri voru samanlagt ákærðir fyrir 76 kynferðisbrot. Fram kom í máli ákæruvaldsins að mennirnir tveir hefðu gefið þeim sem þeir brutu á peninga eða skrifað upp á lyfseðilskyld lyf  handa þeim. Aðeins var réttað yfir öðrum bróðurnum í dag, en hinn fer fyrir dóm í apríl á næsta ári.

Mennirnir tveir voru auk kynferðisbrotanna ákærðir fyrir lyfjasmygl, að hafa í vörslu sinni barnaklám, mútur og peningaþvætti. Mennirnir tveir hafa stundað þetta athæfi sitt árum saman. Tveggja ára rannsókn á ábendingu þess efnis að þeir skrifuðu upp á lyfseðilsskyld lyf handa ólögráða ungmennum leiddi til þess að þeir voru ákærðir fyrir kynferðisbrotin. Nokkurt magn af barnaklámi fannst á heimili bræðranna, en þeir voru þekktir fyrir að taka ljósmyndir á íþróttaviðburðum unglinga í bænum.


mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert