Börn tekin frá foreldrum vegna offitu

Myndin tengist ekki beint efni fréttarinnar.
Myndin tengist ekki beint efni fréttarinnar. Reuters

Sjö bresk börn, þar á meðal ungbarn, hafa verið fjarlægð frá foreldrum sínum sem þjást af offitu. Börnin hafa verið sett til fósturforeldra vegna áhyggja af velferð þeirra.

Fjölskyldunni sem er frá Dundee hefur verið skipt upp eftir að barnavernd komst að þeirri niðurstöðu að slíkt þjónaði best hagsmunum barnanna.

Meðal barnanna er stúlka sem fæddist í þessari viku en móðirin er 146 kíló. Konan er fertug og hinn 53 ára gamli eiginmaður hennar vegur 118 kíló.

Tvö barnanna, þriggja og fjögurra ára, voru fjarlægð frá foreldrum sínum fyrr á árinu.

Nú hafa hin fimm, þar á meðal ungbarnið og þrettán ára gamall drengur sem er sagður vera 101 kíló verið fjarlægð að auki.

Bæjaryfirvöld í bænum segja að það sé ekki yfirlýst stefna þeirra að fjarlægja börn frá foreldrum sínum einvörðungu vegna offituvandamála.

Lögfræðingur hjónanna, Kathleen Price, hefur áður lýst því yfir að offita sé aðalástæða þess að börnin voru fjarlægð. Hún sagði að parinu hefði ekki verið gefin næg tækifæri og að þau væru fórnarlömb í þessu máli.

Bæjaryfirvöld hafa varið ákvörðun sína og vísað til hags barnanna.


mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert