ESB-leiðtogar ná ekki saman um loftslagsmálin

Vel er fylgst með leiðtogum ESB.
Vel er fylgst með leiðtogum ESB.

Leiðtogum Evrópusambandsins (ESB) mistókst á fundi sínum í Brussel í gærkvöldi að ná samstöðu um sameiginlega stefnu í loftslagsmálum fyrir loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna (SÞ), sem haldin verður í Kaupmannahöfn í desember.

Fredrik Reinfeldt, forsætisráðherra Svía sem fara með forystu í ESB, hvatti leiðtogana til þess að sættast á fasta upphæð sem greidd yrði þróunarríkjum til að takast á við afleiðingar loftslagsbreytinga.

Með því væri gefið fordæmi fyrir önnur auðug ríki eins og Japan og Bandaríkin að leggja þróunarlöndum lið. Níu ESB-ríki í austanverðri Evrópu vildu að ríkari lönd sambandsins tækju á sig stærri skerf en hin, að sögn Jacek Rostowski, fjármálaraðherra Póllands.

Hermt er að Reinfeldt muni freista þess að ná sáttum um nýja tillögu sem hann hyggst leggja fyrir leiðtogana í dag, á seinni degi fundar þeirra.

ESB hefur heitið því að draga úr losun gróðurhúsalofts um 20% fyrir árið 2020.


mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert