Fjöldamorðingi tekinn af lífi

Fjöldamorðinginn John Allen Muhammad var tekinn af lífi í nótt í fangelsi í Virginíu í Bandaríkjunum. Hann var sakfelldur fyrir að myrða tíu manns í Washington, Maryland og Virginíu og nágrenni árið 2002 ásamt vitorðsmanni sínum Lee Boyd Malvo, sem þá var aðeins 17 ára gamall. Frá þessu er greint á vef breska ríkisútvarpsins.

Malvo var dæmdur í lífstíðarfangelsi, en hann vitnaði gegn Muhammad við réttarhöld yfir þeim. Muhammad var tekinn af lífi með banvænum eiturskammti sem virkaði á fimm mínútum og var úrskurðaður látinn rúmlega tvö í nótt að íslenskum tíma.

Að sögn talmanns fangelsisins virtist Muhammad rólegur meðan aftakan fór fram. Hann sagði ekkert áður en hún hófst, en honum var boðið að ávarpa viðstadda.

Tæplega 30 manns voru viðstaddir aftökuna þar á meðal ættingjar sumra fórnarlambanna. Ríkisstjóri Virginíu,Tim Kaine, hafnaði náðunarbeiðni lögmanna Muhammad. Verjandi hans, J Wyndal Gordon, sagði að hann hafi ekki verið heill á geðsmunum þar sem hann liði af stríðsáfallastreituröskun eftir þátttöku sína í stríðsrekstri Bandaríkjamanna við Persaflóa.

Fyrir aftökuna sagði Gordon að Muhammad myndi deyja "með reisn og án eftirsjár þar sem hann væri saklaus." Lýsti hann skjólstæðingi sínum sem píslarvotti dauðarefsingar. Að aftöku lokinni vottaði hann bæði ættingjum fórnarlambanna sem og Muhammads samúð sína.


John Allen Muhammad
John Allen Muhammad POOL
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert