Sat í átta mánuði í stól þar til hann dó

Þrjátíu og þriggja ára gamall maður frá Suður Karólínu í Bandaríkjunum lést á miðvikudag, eftir að hafa setið í átta mánuði í sama stólnum. Hann vó 400 pund, eða 182 kíló og settist í stólinn á sínum tíma eftir að hann meiddist á hné og hætti að geta hreyft sig.

Daniel Webb, en það hét maðurinn, bjó í hjólhýsi og neitaði sér um læknisaðstoð þar sem hann hafði ekki efni á henni, enda ekki með tryggður fyrir heilsuáföllum, eins og ástatt er um milljónir Bandaríkjamanna. Greint er frá þessu á sjónvarpsstöðinni WSPA-TV.

Eiginkona Webbs, Ada, hringdi á sjúkrabíl eftir að Webb fór að kvarta undan miklum verkjum. Sjúkraflutningamenn urðu að klippa stólinn utan af Webb með sérstökum verkfærum. Þá sáu þeir að hann var með legusár á stórum hluta líkamans og útataður í saur, þar sem hann hafði ekki getað hreyft sig. Því næst var hjólhýsið rifið í sundur til þess að koma honum út úr því.

Webb lést úr hjartaáfalli á leið á spítalann. ,,Ef hann hefði fengið viðunandi umönnun strax í mars hefði þetta aldrei gerst," sagði eiginkona hans við WSPA-TV.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert