Var upp á kvenhöndina í biskupstíð sinni

Fernando Lugo.
Fernando Lugo. AP

Fernando Lugo, forseti Paragvæ, ætti að gangast undir faðernispróf til að gera út um það hvort hann er faðir fjölmargra barna sem kennd eru við hann eða ekki. Þetta segir ráðherra í ríkisstjórn landsins.

Lugo, sem var biskup áður en hann varð forseti, er flæktur í mikið hneykslismál.  Sem kunnugt er mega kaþólskir klerkar ekki gifta sig og kynlíf utan hjónabands er fordæmt af kirkjunni. Í Paragvæ eru 90% íbúa kaþólikkar og málið því hið versta fyrir pólitíska stöðu forsetans. Hann var biskup til ársins 2005 en hætti að starfa fyrir kirkjuna árið 2007 þegar hann bauð sig fram til forseta.

„Hann ætti að taka DNA-próf til að setja fordæmi fyrir aðra karlmenn hér," segir kvenréttindamálaráðherra landsins, Gloria Rubin. Lugo hefur nú þegar viðurkennt að vera faðir tveggja ára gamals barns, sem hin 25 ára gamla Viviana Carillo á. Það hefur valdið mikilli hneykslun.

Síðan þá hafa dómstólar samþykkt að taka til skoðunar kröfur tveggja annarra kvenna um sönnun á faðerni. Önnur þeirra er Benigna Lequizamon, fyrrverandi hreingerningarkona í húsnæði biskupsdæmisins þar sem Lugo þjónaði. Börn kvennanna eru tveggja og sex ára gömul.

Krafa Leguizamon hefur þurft að bíða lengi þar sem forsetinn neitaði því í júní síðastliðnum að fara út úr höfuðborginni til að gefa blóðsýni, þar sem hann væri of upptekinn við að sinna starfsskyldum sínum.

„Ef þau eru börnin hans ætti hann að viðurkenna þau og ef ekki, þá munum við loksins vita hið sanna í málinu. Það er skynsamlegasta leiðin fyrir alla sem málið varðar," segir kvenréttindaráðherrann Rubin.

Lugo er annars merkilegur stjórnmálamaður í Paragvæ, því þegar hann vann forsetakosningarnar árið 2008 batt hann enda á 61 árs samfellda setu íhaldsmanna í því embætti. Sjálfur er hann vinstrisinnaður.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert