Bildt gagnrýnir Svisslendinga

Reuters

Utanríkisráðherra Svíþjóðar, Carl Bildt, gagnrýnir niðurstöðu þjóðaratkvæðagreiðslu í Sviss um bann við byggingu fleiri bænaturna múslíma, mínaretta, í landinu. Segir Bildt niðurstöðuna bera vott um fordóma og efast hann um að mál sem þessi eigi að bera undir þjóðaratkvæði.

Svisslendingar samþykktu óvænt bannið í þjóðaratkvæðagreiðslu í gær og hlaut tillaga þess efnis um 57,5% atkvæða. Var það Svissneski þjóðarflokkurinn (SVP), stærsta stjórnmálafylking landsins, sem lagði hana fram en SVP er hægriflokkur.

Bildt segir að skilaboðin sem niðurstaða þjóðaratkvæðagreiðslunnar fela í sér séu neikvæð, sama hvernig á það er litið. Í viðtali við sænska útvarpið í morgun kom fram hjá Bildt að í Svíþjóð og í flestum ríkjum séu það þeir sem koma að borgarskipulagi sem taki ákvarðanir um byggingar í borgum. „Að taka slíka ákvörðun í þjóðaratkvæðagreiðslu kemur mér afar spánskt fyrir sjónir," sagði Bildt.

Ákvæði um bannið verður nú sett í stjórnarskrá Sviss. Ríkisstjórn landsins var andvíg banninu en Eveline Widmer-Schlumpf dómsmálaráðherra sagði að niðurstaðan endurspeglaði „ótta hjá almenningi við hneigð til íslamskrar ofstækisstefnu“.

Taka yrði tillit til þessara áhyggna en stjórnin teldi bannið ekki vera gott ráð í baráttu við öfgar. Talsmenn stjórnarinnar sögðu einnig að múslímar mættu ekki halda að verið væri að „vísa á bug samfélagi múslíma, trúnni eða menningunni“. Fulltrúar jafnt múslímasafnaða sem kristinna lýstu óánægju með bannið og sögðu hinir síðarnefndu ólíðandi að minnihlutahópur sætti slíkri mismunun.

Sviss er með um 7,5 milljónir íbúa eða nokkru færri en í Svíþjóð. Um 400 þúsund múslímar, flestir upprunnir á Balkanskaga, búa í landinu. Þegar hafa fjórir bænaturnar verið reistir við moskur í Sviss en vegna laga um hávaðamengun er bannað að nota þá til bænakalla. SVP segir turnana tákn um að múslímar séu að reyna að seilast til valda í landinu. Víða í Evrópulöndum hefur komið til deilna vegna óska múslíma um að fá að reisa moskur og mínarettur.

Carl Bildt
Carl Bildt Reuters
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert