Hvetur múslima til að tæma bankareikninga í Sviss

Mevlana moskan í Rotterdam.
Mevlana moskan í Rotterdam. Reuters

Tyrkneskur ráðherra segist búast við því að múslímar muni taka út allar bankainnistæður sínar í svissneskum bönkum í mótmælaskyni við nýlega þjóðaratkvæðagreiðslu þar í landi sem bannar byggingu fleiri bænaturna múslima í Sviss.

„Ég er sannfærður um að þessar kosningar muni hvetja bræður okkar frá múslímskum löndum, sem eiga innistæður í svissneskum bönkum og hafa fjárfest þar í landi, til að endurskoða þá ákvörðun sína,“ segir Egemen Bagis, forsætisráðherra Tyrkland, sem jafnframt er aðalsamningamaður Tyrkja í aðildarviðræðum landsins við Evrópusambandið. Ummælin voru eftir honum höfð í dagblaðinu Hurriyet sem hefur mikla útbreiðslu í Tyrklandi. Bætti hann við að tyrkneskir bankar stæðu eignafólki ávallt opnir.

Daniel Cohn-Bendit, varaforseti Græningja á Evrópuráðsþinginu, hefur einnig beint því til efnaðra múslima að þeir taka allt fé sitt út af bankareikningum í Sviss.

Tyrkneskir leiðtogar hafa harðlega gagnrýnt niðurstöðu þjóðaratkvæðagreiðslunnar og segja hana birtingarmynd vaxandi fordóma Evrópubúa í garð Íslams. Þeir hafa hvatt svissnesk stjórnvöld til þess að „leiðrétta mistökin hið fyrsta“.

Alls 57% Svisslendinga samþykktu bannið við byggingu fleiri bænaturna í þjóðaratkvæðagreiðslunni í síðustu viku, þrátt fyrir andstöðu bæði ríkisstjórnar landsins sem og fjölmargra stjórnmálamanna við slíku banni. Það var Svissneski þjóðarflokkurinn (SVP), stærsta stjórnmálafylking landsins, sem lagði hana fram en SVP er hægriflokkur. Hægriflokkar víðs vegar um Evrópu hafa hins vegar fagnað banninu og kalla nú eftir sambærilegri þjóðaratkvæðagreiðslu í sínum löndum.


mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert