Friðsamlegar mótmælaaðgerðir

Mótmælaaðgerðunum í Kaupmannahöfn, þar sem þjóðir heims voru hvattar til að grípa til róttækra aðgerða til að bregðast við hlýnun andrúmsloftsins, lauk með friðsamlegum hætti. Talið er að allt að 100 þúsund manns hafi tekið þátt í göngu frá Kristjánsborgarhöll í miðborginni að Bella Center á Amager þar sem loftslagsráðstefna Sameinuðu þjóðanna fer fram.

„Ég tel að þessar mótmælaaðgerðir séu svo kröftugar og fjölmennar, að það er ekki hægt annað en vera ánægður," sagði Eriel Deranger, einn af mótmælendunum, sem ferðaðist frá Kanada til Kaupmannahafnar, við Berlingske Tidende. 

Alls tóku 438 samtök frá 67 löndum þátt í mótmælunum, sem ætlað var að hvetja þjóðarleiðtoga til að komast að réttlátu og bindandi samkomulagi um losun gróðurhúsalofttegunda.

Um 900 manns voru handtekin en um var að ræða varúðarráðstafanir lögreglu til að koma í veg fyrir átök. Þá var kveikt í bílum við Kristjánshöfn en að öðru leyti fóru aðgerðirnar að mestu leyti friðsamlega fram.

Tugir þúsunda manna hafa mótmælt loftmengun í Kaupmannahöfn í dag.
Tugir þúsunda manna hafa mótmælt loftmengun í Kaupmannahöfn í dag. Reuters
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert