Efins um að tveggja gráða samkomulag náist

Fredrik Reinfeldt, forsætisráðherra Svíþjóðar.
Fredrik Reinfeldt, forsætisráðherra Svíþjóðar. Reuters

Fredrik Reinfeldt, forsætisráðherra Svíþjóðar, segist vera efins um hvort lokasamkomulag náist á loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna, sem fram fer í Kaupmannahöfn, sem muni takmarka hlýnun jarðar við tvær gráður á celsíus.

„Við verðum að halda okkur við tveggja gráða markmiðið,“ segir Reinfeldt, en Svíar eru nú í forsæti Evrópusambandsins. „Ég er hins vegar ekki viss hvort við getum náð því [í Kaupmannahöfn],“ bætir forsætisráðherrann við.

Hann lét ummælin falla á fundi Evrópuþingsins í Strassborg. Reinfeldt og Jose Manuel Barroso, forseti framkvæmdastjórnar ESB, eru væntanlegir til Danmerkur síðar í dag þar sem þeir munu taka þátt í lokaumræðunum.

Eitt af lykilmarkmiðum ráðstefnunnar er að takmarka meðalhækkun hitastigs í heiminum við tvær gráður á celsíus á öldinni. Svo það megi takast þá hefur ESB heitið því að draga úr losun koltvísýrings um 20% fyrir 2020, þ.e. miðað við þá losun sem var á níunda áratugnum.

ESB hefur einnig boðist til að minnka losunina um 30% ef önnur ríki, sem menga mikið, eru einnig reiðubúinn að gera slíkt hið sama.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert