Samgöngur úr skorðum

Samgöngur hafa einnig farið úr skorðum í Þýskalandi.
Samgöngur hafa einnig farið úr skorðum í Þýskalandi.

Kuldakastið hefur sett jólaverslun í Bretlandi úr skorðum en ófærð hefur tafið ferðir milljóna manna síðustu daga. Breska veðurstofan varar við mikilli ísingu á vegum í Bretlandi og Wales en snjórinn sem féll í nótt hefur þjappast saman og því myndast hættuleg hálka. Sumir komust ekki heim í nótt.

Fjöldi ökumanna hafðist við í bílum sínum í nótt en aðrir gáfust upp og yfirgáfu bíla sína til að leita skjóls frá kuldanum.

Þeir sem hugðust ferðast með lestum og flugvélum lentu einnig í kröppum dansi enda tafir miklar. Jafnvel hefur borið á því að fólk hafi þurft að sofa á vinnustað sínum í nótt þar sem samgöngur lömuðust.

Nefna má að í Hampshire festust um 2.000 bílar í umferðinni að því talið er og hafa yfirvöld verið gagnrýnd fyrir seinagang í viðbrögðum sínum við ófærðinni.

Að minnsta kosti fjórir Bretar hafa látið lífið í yfirstandandi kuldatíð. Þrír biðu bana þegar fólksbíll lenti í árekstri við pallbíl auk þess sem maður drukknaði er hann féll í ísilagða tjörn.

Mikil röskun varð á flugi og til dæmis voru nítján flugferðir felldar niður frá Manchester.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert