Jólahátíð hafin í Betlehem

Þúsundir kristinna pílagríma hafa streym í litla bæinn Betlehem í dag til að fagna fæðingu Jesú á staðnum þar sem talið er að hann hafi komið í heiminn. Heimamenn segjast taka jólunum í ár með blendnum huga í skugga aðskilnaðarmúrsins á Vesturbakkanum.

Hátíðahöldin eru hinsvegar engu minni en áður og hófust með árlegri skrúðgöngu í sól og blíðu í dag. Síðar í dag verða haldnir tónleikar og í kvöld verður svo hefðbundin miðnæturmessa í Katrínarkirkju við hlið Fæðingarkirkjunnar í Betlehem, en hún var byggð á þeim stað þar sem sagt er að María hafi alið sveinbarn í fjárhúsi eftir að þau Jósef fengu hvergi inni á gistihúsi.

„Þetta er staðurinn þar sem Guð gaf okkur son sinn, svo það er mjög þýðingarmikið fyrir mig að vera hér," hefur AFP eftir pílagrímnum Juan Cruz frá Mexíkó. Þrátt fyrir að bærinn sé prýddur jólaljósum er vofir skuggi aðskilnaðarmúrsins þó ávallt yfir bæjarbúum.

„Við erum tilbúin að fagna jólunum með ljósum, skreytingum og gleði, en þessi litli bær kærleiks og friðar, höfuðborg jólanna, hann sárvantar þann frið sem hann á skilið," segir borgarstjóri Betlehem, Victor Batarseh.

Síðan átökum lauk á Vesturbakkanum í upphafi árs hefur ríkt þokkalegur friður á Vesturbakkanum og rúmlega 1,6 milljón ferðamenn hafa heimsótt í Betlehem í ár. Búist er við um 15.000 pílagrímum til viðbótar í kringum jólin.

Börn kveikja á kertum í Fæðingarkirkju frelsarans í Betlehem.
Börn kveikja á kertum í Fæðingarkirkju frelsarans í Betlehem. Reuters
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert