Feitur matur fitar ekki

Baráttan við kílóin heppnast ef fólk hreyfir sig nóg.
Baráttan við kílóin heppnast ef fólk hreyfir sig nóg. Þorvaldur Örn Kristmundsson

Nýjar og viðamiklar rannsóknir sýna að feitur matur gerir okkur ekki feit, að sögn Dagens Nyheter. ,,Tvær kynslóðir Svía hafa fengið rangar upplýsingar um mataræði og hafa barist að óþörfu við fitu," segir Göran Berglund, prófessor í læknisfræði við háskólann í Lundi.

 Hann vitnar í rannsókn sem Nita Forouhi, vísindamaður við Cambridge-háskóla í Bretlandi, og fleiri hafa gert á matarvenjum um 90.000 manns í Bretalandi, Danmörku, Hollandi, Þýskalandi og á Ítalíu í 10 ár. Ekki virtust vera nokkur tengsl milli líkamsþyngdar fólksins og þess hve mikillar fitu það neytti. Ekki skipti heldur máli hvort um var að ræða mettaða eða ómettaða fitu. En allir þyngdust að meðaltali um eitt kíló á þessu tímabili.

 ,,Þetta merkir að við eigum ekki að beina allri athyglinni að fitunni í matnum ef við viljum halda heilsusamlegri þyngd," segir Forouhi í tölvuskeyti til Dagens Nyheter. ,,Við eigum þess í stað að borða mat þar sem jafnvægis er gætt í samsetningunni en losna við hitaeiningarnar með því að hreyfa okkur."

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert