Fréttaskýring: Árásin skipulögð í Jemen

Nígeríumaður, sem reyndi að sprengja upp bandaríska farþegaflugvél á jóladagskvöld, hefur viðurkennt að hafa verið í þjálfun hjá sprengjugerðarmönnum hryðjuverkjasamtakanna al-Qaeda í Jemen. Þetta hafa bandarískir fjölmiðlar eftir starfsmönnum alríkislögreglunnar FBI.

Hlutverk Jemen í alþjóðlegum hryðjuverkasamsærum virðist stöðugt vera að aukast og stjórnvöld í landinu hafa nýlega hafið sókn gegn starfsemi al-Qaeda í landinu. Eru 68 meintir hryðjuverkamenn sagðir hafa verið felldir á síðustu 10 dögum.   

Svo virðist sem sprengjutilræði Nígeríumannsins Umar Farouks Abdulmutallab hafi verið skipulagt í Jemen af félögum í al-Qaeda, sem hafi jafnvel saumað sprengjuna í nærföt Abdulmutallabs. Honum tókst hins vegar ekki að sprengja sprengjuna eins og til stóð og þess í stað kviknaði í fötum hans.

Í þjálfunarbúðum al-Qaeda

Abdulmutallab er sagður hafa skýrt lögreglu frá því, að jemenskur klerkur, sem hann var í samskiptum við á netinu, hafi komið honum í samband við einn af leiðtogum al-Qaeda, sem býr í Jemen. Sagðist hann hafa dvalið í mánuð í búðum al-Qaeda, norður af Saana, höfuðborg landsins, og ekki fengið að yfirgefa svæðið fyrr en hann hafði fengið þjálfun hjá sádi-arabískum sprengjugerðarmanni.

Abdulmutallab  sagðist hafa fengið fyrirskipanir um hvernig hann ætti að standa að árásinni á flugvélina. Þannig hafi hann átt að sprengja sprengjuna þegar vélin nálgaðist Detroit  því þá myndi flugvélin væntanlega hrapa á íbúðarhverfi og manntjón yrði meira en ella. 

Lét vita af öfgum sonar síns

Abdulmutallab er sonur vel metins bankamanns í Nígeríu. Samkvæmt fréttum þaðan var Abdulmutallab trúaður unglingur sem hneigðist til róttækni þegar hann stundaði nám við Lundúnaháskóla.  Hann flutti fyrst til Egyptalands og síðan Dubai og tilkynnti fjölskyldu sinni, að hann ætlaði að slíta öllu sambandi við hana.

Faðir hans hafði svo miklar áhyggjur af afstöku sonar síns að hann hafði samband við bandaríska sendiráðið í Abuja, höfuðborg Nígeríu, og lét vita af því að Abdulmutallab kynni að vera hættulegur.

Hollensk stjórnvöld sögðu hins vegar, að Abdulmutallab hefði haft gilda bandaríska vegabréfsáritun þegar hann millilenti í Amsterdam á leiðinni frá Jemen til Detroit á föstudag. Þá fóru bandarískir eftirlitsmenn yfir farþegalistann áður en Abdulmutallab fór inn í vél Delta flugfélagsins.

Með sprengiefni og hólk

Í ákæru, sem birt var Abdulmutallab í gærkvöldi, eru upplýsingar um sprengjuna, sem hann reyndi að sprengja. Þar segir bandaríska dómsmálaráðuneytið, að hann hafi farið inn á salerni vélarinnar og dvalið þar í um 20 mínútur. Þegar hann snéri aftur í sæti sitt vafði hann sig í teppi. Síðan heyrðu farþegar hvelli og fundu lykt og sáu þá að buxnaskálm Abdulmutallabs og hlið flugvélarinnar stóðu í björtu báli.

„Flugfreyja segist hafa spurt Abdulmutallab hvað hann væri með í vasanum og hann svaraði: sprengju. 

Farþegi sagðist hafa séð Abdulmutallab halda á hálfbráðnuðum hólki sem reyk lagði af. Farþeginn tók hólkinn af Abdulmutallab, hristi hann og kastaði honum á gólf flugvélarinnar. 

Hólkurinn fannst síðar og reyndist innihalda PETN, sem einnig er nefnt  pentaerythritol en það er afar öflugt sprengiefni sem svipar til nitro-glycerins.

Bandaríska sjónvarpsstöðin ABC hefur eftir lögreglumönnum, að bæði hólkurinn og sprengiefnið hafi verið saumuð inn í föt Abdulmutallabs í Jemen.

Neitað um vegabréfsárlitun í Bretlandi

Breska blaðið Sunday Times segir í dag, að Abdulmutallab hafi lokið námi frá Lundúnaháskóla á síðasta ári. Hann sótti síðan á ný um vegabréfsáritun þangað til lands í maí sl. á þeim forsendum að hann ætlaði að stunda nám í öðrum skóla. Sá skóli reyndist hins vegar ekki vera til og því var umsókninni hafnað.

Reutersfréttastofan hefur eftir bandarískum embættismanni, að nafn Abdulmutallabs hafi verið að finna í gagnagrunni, sem nefndur er Terrorist Identities Datamart Environment en þar eru skráðir einstaklingar, sem taldir eru lauslega tengdir hryðjuverkasamtökum. Mun nafn Abdulmutallab hafa verið sett í grunninn eftir viðvörun föður hans.

Í umræddum gagnagrunni eru nöfn 550 þúsund einstaklinga. 4000 þeirra fá ekki að fljúga í bandarískum flugvélum og um 14 þúsund eru í sérstakri gæslu ef þeir fljúga. 

HO
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert